154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, hæstv. ráðherra talar hér ítrekað um fegurð; fegurð lýðræðis og fegurðina á takkaborðinu okkar, gulur, rauður, grænn, talar um fegurð á tjáskiptunum og að við getum átt samtalið. Það er gott og blessað, ég tek undir allt það. En hann talar líka um að það felist í því lýðræði að koma fram og segja skoðanir sínar og leggja fram þær tillögur sem hjarta manns býður manni að gera.

Mig langar að koma með eina spurningu til hæstv. ráðherra: Hvað telur hæstv. ráðherra að það sé að axla ábyrgð? Telur hæstv. ráðherra að völdum fylgi engin ábyrgð og að völdum séu engin takmörk sett og ef valdhafarnir gerast brotlegir við gildandi lög í landinu að það eigi ekki að hafa neinar afleiðingar? Er það virkilega svo að við séum þangað komin?

En ég ætla líka að gleðja hæstv. ráðherra með því að við erum að kalla á kosningar næsta haust þannig að hans hæstv. ríkisstjórn getur hrúgað þessum málum inn og gert allt þetta góða og frábæra fyrir fólkið sem situr eftir í vaxandi fátækt, hrópar á hjálp. Það er sannarlega orðið tímabært að taka tappann úr eyrunum og fara að hlusta, að fara að svara ákalli fólksins í landinu sem er að biðja um hjálp. Það er ekki nóg að koma hér og tala fallega um að allt sé svo æðislegt og hér ríki jöfnuður og annað slíkt þegar það er vitað að það er vaxandi fátækt og nú er líka vaxandi skuldastaða heimilanna, hún hefur vaxið um 5,7% bara í janúar síðastliðinn, frá því á sama tímabili í fyrra. Og nú er talað að um 40% vöxtur sé á skuldum heimilanna, að skuldir heimilanna fari vaxandi. Þannig að ég segi bara: Betur má ef duga skal. Hæstv. ráðherra kom sjálfur með vantrauststillögu þar sem hann ætlaði bara að slíta þingi 11. maí og boða til kosninga í kjölfarið. Hvað er þetta öðruvísi nema bara málefnalegra?